JAKOB VALGEIR EHF. KAUPIR VINNSLUKERFI FRÁ MAREL

Gengið hefur verið frá samningi milli Jakobs Valgeirs ehf. í Bolungarvík og Marel um nýtt vinnslukerfi. Vinnslukerfið  saman stendur af FleXicut Twinblade vatnskurðarvél, sjálfvirkri beingarðsfrátöku og FleXishort afurðardreifingu ásamt tvöföldum 12 hliða vippuflokkara með frátökubandi fyrir kassa og öskjur, ásamt tékkvog og afurðarböndum.

FleXicut vatnskurðarvélin sker beingarð úr ferskum þorsk-, ýsu- og steinbítsflökum, hlutar þau niður í bita eftir fyrirfram ákveðnum skurðarmynstrum með mikilli nákvæmni með eða án roðs, allt eftir óskum viðskiptavina Jakobs Valgeirs ehf. 

Screenshot 2021-04-27 at 21.53.04.png

Þetta er fjórða FleXicut vatnskurðarvélin sem Marel selur síðan í maí, en þá var hún fyrst sett í almenna sölu eftir prófanir með íslenskum fiskframleiðendum .

Vinnslukerfið verður sett upp í fiskvinnslu Jakobs Valgeirs í Bolungarvík í nóvember næstkomandi.

 „ Ástæðan fyrir kaupunum er að auka framleiðsluna verulega og bæta nýtingu með einsleitum skurði. Auk þess verður vinnslulínan einfaldari og meðferð hráefnis betri, sem skilar sér í auknum gæðum í loka afurðinni. Einnig mun kerfið auðvelda starfsfólki störfin þar sem vélin ræður vel við að skera í gegnum fiskroð," segir Jakob Valgeir Flosason framkvæmdastjóri í fréttatilkynningu frá Marel.

"FleXicut skurðarvélin mun opna fleiri möguleika á ýmsum skurðarmynstrum sem auðvelt er að breyta með lítilli fyrirhöfn þar sem mynstrin eru ákvörðuð á einum stað. Pökkunarlínan mun einnig bæta meðferð verulega og skilar nákvæmari vigtun á lokapakkningu“, segir hann ennfremur.  

Frétt frá fiskfrettir.is

Previous
Previous

JAKOB VALGEIR STÆKKAR FRYSTIHÚSIÐ